


Hamraborg Festival
Hamraborg Festival 2025 29. ágúst – 5. september Hamraborg, Kópavogur
Þar sem list er allstaðar og öll eru velkomin!
Hamraborg Festival er lífleg hátíð og vikulangur fögnuður lista og samfélags í hjarta Kópavogs. Í lok ágúst hvert ár kveðjum við sumarið með stútfullri dagskrá af sýningum, gjörningum, vinnusmiðjum og ýmsum viðburðum. Aðgangur ókeypis og öll velkomin.
Hátíðin stendur yfir dagana 29. ágúst - 5. september 2025 og dreifist um menningarhús, búðarglugga, kaffihús, skrifstofur og almenningsrými Hamraborgar. Listin flæðir inn í og sprettur úr hverju horni hverfisins sem býður gestum og íbúum að kanna og njóta ólíkra listforma.
Hamraborg Festival er haldið í fimmta sinn í ár og af því tilefni leggja sýningarstjórar áherslu á grósku, aðhlynningu og ræktun. Þemað endurspeglar langtímamarkmið hátíðarinnar sem er að dýpka sambönd listamanna við samfélagið sem þeir vinna inn í. Hátíðin leitast við að varðveita og viðhalda samtali á milli ólíkrar listiðkunar, samfélags, umhverfis og arkitektúrs - innan bæjarumhverfis Hamraborgar. Annað markmið innan þema þessa árs að höfða til ólíkra áhorfenda, barna og fjölskyldna, pönkara, langtíma íbúa, nýfluttra og þá sem eiga leið hjá.
Sýningar munu spretta upp víðsvegar um Hamraborg, til dæmis á ferðaskrifstofunni Visitor, EuroMarket, Polo, Bókasafni Kópavogs, Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu og almenningsrýminu í kring.
Listamennirnir sem taka þátt eru með ólíkan bakgrunn og vinna í fjölbreytta miðla. Listamenn hátíðarinnar koma víðsvegar frá, bæði úr Kópavogi og utan en þetta árið tökum við glöð á móti listamönnum frá Kanada, Póllandi og Wales.
Hátíðin hefst föstudaginn 29. Ágúst með litríkri skrúðgöngu leidd af lúðrasveit og gjörningalistamönnum. Um kvöldið verða spennandi viðburðir með leynigestum, uppákomu í Y gallery og Gjörningarkvöldi í Gerðarsafni. Á laugardaginn 30. ágúst verða haldnar vinnusmiðjur fyrir allan aldur, hljóðgjörningar og þátttöku- viðburðir sem verða í gangi yfir daginn. Um kvöldið verða haldnir stórtónleikar á Catalinu þar sem fram koma Búdrýgindi, Kælan Mikla, MC Myasnoi og plötusnúðar. Sunnudaginn 31. ágúst heldur dagskráin áfram með fleiri gjörningum og fjölskylduvænum viðburðum sem endar á tónleikum í Salnum þar sem Björg Brjánsdóttir, Ingibjörg Turchi og Andervel stíga á stokk.
Sýningar hátíðarinnar standa yfir alla vikuna til 5. september en auk þess verða viðburðir inn í viku, þar á meðal nýtt verk eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur, DJ Amma.
Sprettum, vöxum og blómstrum saman í Hamraborg.
Komdu með og fagnaðu fimm árum af list og samfélagi! Áfram Hamraborg!
Hátíðin er styrkt af:
Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogs
Myndlistarsjóði
Viðburðir 2025
Allir viðburðirVarningur
Kátt á Línunni
Tónleikaröð á Catalinu
Gjörningafestival - Gerðarsafn x Hamraborg Festival